Á Capo Roig svæðinu er mjög fjölbreytt matarmenning, þar er fjöldinn allur af veitingastöðum. Eins og þið vitið þá geta þeir verið misgóðir, en flestir þeirra eru mjög góðir og nokkrir  algerlega frábærir. Í göngufæri frá húsinu er verslunar og veitingahúsakjarnar  þar er  t.d versluninni Iceland  ásamt  nokkrum veitingahúsum og börum sem eru mjög góðir, eins er kjarninn Lomas De Cabo Roig  sem er nýr og þar eru þegar komnir frábærir veitingastaðir, kaffihús og barir.

Hér fyrir neðan er listi yfir nokkra þeirra  staða sem við og okkar vinafólk hefur sótt á síðustu ár. Þetta er alls ekki tæmandi list en gagnast ykkur vonandi eitthvað.

Isabella er ítalskur staður í  Lomas De Cabo Roig kjarnanum. Matseðill er ekki risa stór en frábærir réttir, pizzur, pasta, steikur og nokkrir fiskréttir ásamt barnamatseðli. Góð þjónusta og vinalegt umhverfi.

Pizza Pavarotti er einn albesti pizza staðurinn á svæðinu, þar eru eldbakaðar pizzur og þeir bjóða einnig uppá aðra rétti. Þarna er ekki neitt risa stór matseðill en mjög góður staður. Hægt að panta og takameð sér heim. Staðsetningin er í nokkra mínutna göngufæri á La Rounda hringtorgið þar sem írski pöbbin er.

WOK buffet – Asia Garden er frábær buffet staður þar sem allir fá eitthvað við sitt hæfi,  forréttir, núðluréttir, kjúklingaspjót, önd og fleira girnilegt. Þegar farið er yfir í aðalréttina byrjar fjörið, þú velur sjálfur þitt hráefni, úrvalið er endalaust kjúklingur, nautakjöt, allavega fiskur, risarækjur, krabbi og fullt fullt af grænmeti sem kokkarnir snögg sjóða og steikja síðan á WOK pönnu í sósu að þínu eigin vali. Mjög gott Sushi er í boði og eftirréttir. Staðsettur við N-332 rétt við pýramýdahringtorgið í Cabo Roig.

Mamma Mia Pizzeria er góður pizzastaður við göngugötuna í Cabo Roig. Þar eru mjög góðar eldbakaðar pizzur, pastaréttir, steikur og fleira. Þarna fær maður eitt besta hvítlausbrauð á Spáni þó víða væri leitað. Einnig er hægt að sækja pizzu og taka með heim, síminn hjá þeim er 0034-96 532 1305

The Italian Affair er eins og nafnið gefur til kynna ítalskur veitingastaður, þar er mjög góður matur og frábær þjónusta, staðurinn er við göngugötuna í Cabo Roig.          Þessi staður er afar vinsæll og yfir sumarmánuðina er betra að panta. Síminn hjá þeim er: 0034-96 532 2649.

Puccini’s er líka Ítalskur eins og The Ítalian Affairr og sömu eigendur. Matseðlarnir eru ekki ólíkir, en á Puccini er lögð meiri áhersla á pizzur og pasta. Á þessum stað er rækjukoktelinn frábær hef ekki fundið hann betri á Spáni. Vinsæll staður og betra að panta fyrirfram borð. Er staðsettur í næstu götu fyrir neðan göngugötuna.

Gourmet Burgers er frábær hamborgarastaður í eigu íslendinga. Hjá þeim færðu ALVÖRU hamborgara sem þau gera sjálf úr úrvals nautakjöti, ekki einhverja kjötbollu í brauði eins og víða er á Spáni. Mæli með borgara sem heitir “Eyjafjallajökul” hann er rosalega góður með beikoni, eggi og tilheyrandi gúmmelaði. Auðvitað færðu kokteilsósu hjá þeim og einnig eru þau með ljúffenga eftirrétti. Gourmet Burgers eru á göngugötunni í Cabo Roig. 

Restaurante Argentino er geggjað steikhús. Þarna færðu alvöru steikur sem þú getur valið sjálfur allt vel útilátið og gott meðlæti. Útiaðstaðan hjá þeim er mjög kósý. Hann er eins og hinir staðirnir staðsettur á göngugötunni í Cabo Roig. Síminn hjá þeim er: 0034-96 532 1300.

YAHO er mjög góður austurlenskur veitingastaður, þarna færðu rosalega gott Sushi og staðurinn er einstaklega kósý og þjónustan er mjög góð. Hann er staðsettur við hringtorgið hjá Apótekinu þegar komið er niður úr hverfinu okkar á  göngugötunni í Cabo Roig. Síminn hjá þeim er: 0034-96 532-3859