Costa Blanca svæðið er algjör ævintýraheimur þegar kemur að skemmtigörðum, áhugaverðum stöðum sem vert er að skoða og afþreyingu af öllum gerðum. Það ætti því engum að leiðast.
Terra Mitica er langstærsti skemmtigarður Costa Blanca svæðisins og er algjör ævintýraheimur bæði fyrir unga sem aldna. Það er nauðsynlegt að heimsækja garðinn að minnsta kosti einu sinni þó það geti tekið nokkra daga að upplifa allt sem boðið er upp á.
Rio safari dýragarðurinn er staðsettur á Costa Blanca suðursvæðinu eða miðja vegu á milli borgarinnar Elche og Santa Pola en þar geta gestir dýragarðsins gengið um, skoðað og jafnvel fóðrað dýrin.
Aquapolis vatnagarðurinn er staðsettur í Torrevieja og hefur upp á öll þau helstu vatnaleiktæki og brautir að bjóða sem er í stærri görðum. Góður fjölskyldugarður – staðsettur rétt við sveitaveginn N-332. Hinum megin við N-332 er verslunarmiðstöðin Habaneras og afþreyingarstaðurinn Ozone þar sem bíósalirnir og keiluhöllin eru.
Polar Park er lítill skemmtigaður í Santa Pola rétt fyrir norðan Torrevieja. Ókeypis er í þennan skemmtilega garð þar eru hoppukastalar, rennibrautir, vatnabátar, mini golf og fjöldinn allur af leiktækjum. Þarna eru einnig veitingastaðir, ísbúðir og margt fleira. Kíkið endilega á heimasíðu garðsins og sjáið hvað hann hefur upp á að bjóða.
Á Costa Blanca svæðinu eru nokkrar Go-kart brautir þar sem bæði ungir sem aldnir geta reynt á aksturshæfileika sína en á þessum brautum eru til leigu miskraftmikilir Go-kart bílar eða allt eftir aldri og getu hvers og eins. Leiguverð á Go-kart bíl er mismunandi eftir stærð og krafti bílanna frá 6 evrum til 16 evrur . Skoðið heimasíðuna hjá skemmtilegri Go-kart braut við Torrevieja (liggur við veginn N-332).
Víða á Costa Blanca ströndinni þar sem fólk liggur í sólböðum í hvítum sandinum má finna sérmerkt svæði þar sem fólk getur leigt sér Jetski frá 15 mínútur upp í hálftíma.
Á nokkrum stöðum við Costa Blanca strandlengjuna er boðið upp á köfun. Nærri Torrevieja er unnt að kafa undir handleiðslu atvinnumanna. Norðan við Benidorm eða við strendur Altea og Calpe er algjör ævintýraheimur kafarans. Þar starfa nokkur fyrirtæki sem sérhæfa sig í köfun fyrir bæði reynslulausa og reynslumikla kafara. Afhverju ekki að láta gamlan draum rætast og kanna undirheima sjávar fyrir aðeins 38 evrur en boðið er upp á köfunarnámskeið og köfunarferðir. Reynslumiklir kafarar finna einnig ýmislegt sér til hæfis en unnt er að leigja allan köfunarbúnað fyrir sanngjarnt verð.
Á Costa Blanca svæðinu er mikið af veitingastöðum af öllum stærðum og gæðum. Yfir sumarmánuðina vill bera við að matseðlarnir á sumum séu líkir. Flestir þessara veitingastaða eru með matseðilinn á ensku og sumir á íslensku og oft með myndum af réttunum sem eru í boði, því ætti að vera auðveltað velja sér rétt. Á svæðinu eru fjöldi veitingastaða sem sérhæfa sig í ákveðinni matseld eins og t.d.Argentískir, kínverskir, indverskir, arabískir, ítalskir, þýskir ofl. Margir þessara staða eru mjög góðir og með frábæra þjónustu.
Í Torrevieja og í sumarhúsahverfunum umhverfis hana er mikið af litlum og notalegum hverfispöbbum þar sem oftar en ekki er boðið upp á lifandi tónlist eða karaoke. Einnig finnast írskir pöbbar – diskópöbbar – og síðast en ekki síst dansstaðir þar sem spiluð er danstónlist allt frá salsa til tecno. Við verslunarmiðstöðina Habaneras er fjöldinn allur af næturklúbbum og diskótekum þar sem opið er fram til 06:00. Rétt þar hjá er afþreyingarstaðurinn Ozone en þar eru nokkrir bíósalir, stór og mikill keilusalur og leiktækjasalur með spilakössum.
Diskótekið Pacha er staðsett í Torrevieja eða rétt við Aquapolis. Pacha – diskókeðjan er þekkt víða í suður evrópu en á hverju kvöldi alla daga vikunnar eru ákveðin þemakvöld þar sem skemmtanaþyrstir sóldýrkendur geta skemmt sér fram undir morgun.
Tívolí og sirkus er í miðbæ Torrevieja við strandlengjuna og er opið allt árið. Þegar ferðamannatíminn stendur sem hæst má víða finna í helstu borgum og bæjum ýmsar farandsýningar t.d. sirkus og tívolí. Þessir atburðir eru yfirleitt í nokkra daga á hverjum stað svo færa þau sig um set, ævinlega vel auglýst á hverjum stað með veggspjöldum.
Allt árið um kring eru söfn og leikhús opin á Costa Blanca svæðinu en yfir sumarmánuðina má sjá hvar margs konar farandssýningum fjölgar gífurlega á svæðinu en þessar sýningar eru einnig auglýstar vel þegar þær eru settar upp. Hér er linkur á síðu þar sem talað um 15 skemmtilegustu hlutina sem eru í boði að mati viðkomandi síðu.